Þótt gangan sé erfið

Ljóð: Tryggvi Þorsteinsson

Þótt gangan sé erfið og leiðin sé löng,
við léttum oss sporin með þessum söng.
Ef þung reynist byrðin og brekkan er há,
brosum, brosum krakkar þá.

Þótt bylji hríð og blási kalt,
brosið er sólskin sem vermir allt,
og bræðir úr hugskoti bölsýnis ís,
brosum, þá er sigur vís.

Enginn er verri þótt vökni í gegn
og vitaskuld fáum við steypiregn.
En látum ei armæðu á okkur fá,
brosum, brosum krakkar þá.

Þótt bylji hríð ….o.s.frv.

Ef þig langar að syngja

Ljóð og lag: B. Ahlfors
Íslensk þýðing: Heimir Pálsson

Ef þig langar að syngja þinn söng,
er söngvastundin að renna upp núna.
Enginn syngur þann söng í þinn stað.
Á morgun er orðið til söngs of seint,
við syrgjum þau ljóð sem í þögnina dóu.
Svo settu nú ekki þinn söng á frest,
heldur syngdu hann nú! Það er best.

Ef þú, vinur, átt örlitla ást,
er ástarstundin að renna upp núna
og enginn mun elska í þinn stað.
Að elska á morgun er allt of seint
og ónýt hver löngun sem fékk ekki að rætast.
Svo sláðu því ást þinni ekki á frest,
heldur elskaðu nú! Það er best.

Ef þig langar að njóta þíns lífs,
eru lífsins stundir að renna upp núna.
Enginn lifir því lífi í þinn stað.
Að lifa á morgun er löngu of seint,
menn láta sér fátt þótt þú ætlir og viljir.
Svo láttu ekki slá þínu lífi á frest,
heldur lifðu því nú! Það er best.

Háttatími á himnum

Lag og ljóð: Olga Guðrún Árnadóttir

Hvað gerir sólin þegar hún sest á kvöldin?
Háttar litlu geislana
oní himinsængina
og fyrir stóru gluggana
hún dregur stjörnutjöldin,
það gerir sólin á kvöldin.

Hvað gerir tunglið þegar það tekur völdin?
Hristir silfurhattinn sinn
svo hrynur úr honum draumurinn
og sáldrast yfir koll og kinn
er sefur barnafjöldinn,
það gerir tunglið á kvöldin.

Óskasteinar

Lag: Ungverskt þjóðlag
Texti: Hildigunnur Halldórsdóttir

Fann ég á fjalli fallega steina,
faldi þá alla, vildi þeim leyna.
Huldi þar í hellisskúta heillasteina,
alla mína unaðslegu óskasteina.

Langt er nú síðan leit ég þá steina,
lengur ei man ég óskina neina
er þeir skyldu uppfylla um ævidaga,
ekki frá því skýrir þessi litla saga.

Gersemar mínar græt ég ei lengur,
geti þær fundið telpa´eða drengur,
silfurskæra kristalla með grænu og gráu,
gullna roðasteina rennda fjólubláu.

Lagið um það sem er bannað

Sveinbjörn I. Baldvinsson.
(Stjörnur í skónum)

Það má ekki pissa bak við hurð
og ekki henda grjóti oní skurð
ekki fara í bæinn
og kaupa popp og tyggjó
og ekki nota skrúfjárn fyrir sleikjó.

Það má ekki vaða út í sjó
og ekki fylla húfuna af snjó
ekki tína blómin
sem eru úti í beði
og ekki segja ráddi heldur réði.

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.

Það má ekki skoða lítinn kall
og ekki gefa ketti drullumall
ekki skjóta pabba
með byssunni frá ömmu
og ekki týna orma handa mömmu.

Það má ekki hjóla inn í búð
og ekki gefa litla bróður snúð
ekki fara að hlæja
þó einhver sé að detta
– ekki gera hitt og ekki þetta.

Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið
það er alltaf að skamma mann
þó maður geri ekki neitt
það er alltaf að skamma mann.

Kisutangó

Mín kisa á vökul eyru
og veiðihár og rófu
og viðkvæmt lítið trýni
hún sleikir oft og þvær.
Hún unir dátt við leiki
og aldrei sýnir klær
og engin kisa í heimi
á svo fimar tær.

Mín kisa dansar
tangó, tangó, tangó,
hún teygir sig og reigir
og er svo fött og brött.
Mín kisa dansar
tangó, tangó, tangó,
ég trúað gæti að margir
vildu eiga slíkan kött
tra la la la la la, mjá !

Bæði ég og þú

Mikis Þeadórakis

Bæði ég og þú, bæði ég og þú
við báðir heyrum klukknaslög
og ljósið deyr, þeir læsa nú
og laumast aftur inn í kvöld.

Hvern fá þeir fyrst, hvern fá þeir fyrst
og hverjir bíða svo í röð.
Þeir pína þig, og pynta mig
og píslarsöngin þekkjum við.

Þeir berja einn, þeir berja tvo
og síðan þrjá og fleiri svo.
Þú ferð inn fyrst, ég fer inn nærst
og seinna úr því skorið fæst
hver ber örkuml mest af því.

:;: Líða mun skammt er við verðum frjáls
við munum sigra hægt og hægt.
Tíminn mun færa frelsi’ á ný
Frelsi á ný, frelsi á ný.
Þrátt fyrir þján og mikla pín
gróa sárin mín og þín :;:

Bæði ég og þú, bæði ég og þú,
við munum sigra hægt og hægt.
Bæði ég og þú, bæði ég og þú.

Fiskibær

Lag: Dirty old town
Texti: Ásgeir Ingvarsson

Mína ást ég fann inn í frysti kró
fagran draum upp úr loðnu kös.
Áttum fund þarna út með sjó.
Óþverrabær, óþverrabær.

Menn koma af sjó með loðnu í lest.
Lífið snýst um slor og grút.
Vorið kom gegnum vonda pest.
Volaður bær, volaður bær.

Þú bjarta nótt hulin bræðslureyk.
Og breima kött, inn við skreiðarhjalla,
til hvers fór ég að far’ á kreik.
Ferlegur bær, ferlegur bær.

Ég mundi staðinn mylja í rúst,
mála brakið fagur grænt,
ætti ég sleggju og ætti ég kúst.
Óþverrabær, óþverrabær.

SLIABH na mBAN

(Framb. Slivnaman)
Þýðing: Ásgeir Ingvarsson
Charles J. Kickham (1828-1882)

Svo einmanna bar mig að ókunnri strönd.
Ég er einman’ í gleðinnar sal.
þó höllin sé glæst, þó að hafið sé blátt
er minn hugur í fjarlægum dal.
Þá flýgur hann heim og finnur enn á ný
allt það fegurst’ og besta er ég man.
Þar sé ég mína ást einsog draumsýn hvern dag
heima í dalnum við Slívnaman.

Í gleðinnar höll nærri glitrandi sæ
þar mun gráta mitt saknaðarljóð,
uns aftur ég finn hana eina er ég ann
þegar upp rís mín fátæka þjóð.
Ég lifi í von þó líði árin hjá
um það ljúfasta og besta er ég man:
Að fáninn blakti frjáls og í fangi mér sé
hún sem fann ég við Slívnaman.

Afi minn og ég

Lag: Sloop John B.
Texti: Ásgeir Ingvarsson

Oft við sigldum um svalan veg
um sundin, afi og ég
út að Gróttu, oft í bullandi sjó.
Öfluðum vel á aflóga skel.
Og allt í súginn – því drukkið var nóg.

Djarft var siglt, einsog oftast er
hjá afa gamla og mér.
Stormur söng í stagi, reiða og klóm.
Við sigldum í strand og stukkum í land.
Stýrið brotið – og flaskan var tóm.

Þegar ýsan var orðin treg
fór afi minn og ég
að stunda slagsmál, stelpur,
drykkju og geim.
og aleigan fór í ofsalegt þjór.
Nú er ég þreyttur
– nú langar mig heim.