SHANGRI LA

Lag og texti: Ásgeir Ingvarsson

Ein er sú leið, sem allir reyna að leita,
einstigi vona drauma og fyrirheita.
Hver fann þá slóð og vill þér leiðsögu veita?
Veginn til SHANGRI LA.
Háreistir tindar huldir eilífri mjöll,
geyma þau heilögu vé, sem þeirra bíða
sem þora og sigra auðn og ógnandi fjöll,
finna sinn ódáins reit í dalnum fríða.
Óviss er leið, það getur verið svo víða
vegur til SHANGRI LA.

Bergið er hátt og hætta í sérhverju skrefi.
Á huga þinn sækja ferðakvíði og efi.
Þeyvindar leika lag með ögrandi stefi.
Ljóðið um SHANGRI LA.
Háreistir tindar huldir eilífri mjöll.
Þetta er hættuleg ferð og ógn í leyni.
Til hvers er að vinna? Kannski er saga þín öll.
Þú ert á krossgötum einn hjá vegarsteini.
Vegurinn heim er villtum förusveini
vegur til SHANGRI LA.

Daddi

Lag: Ingvar Ásgeirsson
Texti: Ásgeir Ingvarsson

Komdu hingað til mín svo ég geti sofnað.
Sérðu ekk’að myrkrið á glugganum er ljótt?
:,:Mig vantar eitthvað hlýtt undir vangann því mig dreymir
svo voðalega illa ef ég sef hér einn í nótt.:,:

Mamma hún er sofnuð,hún sagði mér að lúlla,
en svo kom regn og vindur og barði á gluggann minn.
:,:Og þá fannst mér að úti séu einhverjir að gráta,
sem eiga hvergi heima og vilja komast inn.:,:

Eyrað þitt er rifið,á rassinum er hola.
Og rifið auga líka og hangir út á kinn.
:,:Þú ert svo mikið veikur og enginn til að hugga.
Ég ætla að biðja læknir að sauma þig bangsi minn:,:

Vorvísur

Texti: Ásgeir Ingvarsson

Angar vor í ungu laufi
andar ljúfur blær af heiði.
Þar sem blágresi og bjarkir
klæða berar fjallahlíðar.
Komdu þangað komdu með.

Förum saman að finna
hvernig fjalldrapinn ilmar
þegar vetrarklakinn hverfur
komdu þangað komdu með.

Þar er höll í hlíðardragi
milli hárra klettastalla
þar sem lindin ljúfa niðar
þar sem lyngið prýðir sali
komdu þangað komdu með.

Förum saman að finna
hvernig fjalldrapinn ilmar
þegar vetrarklakinn hverfur
komdu þangað komdu með.

Ég hef valið þig að vini
til að vaka með um nætur
meðan vorblærinn vekur
þar sem vetrarkuldinn svæfir.
komdu þangað komdu með.

Samstilling

Lag og texti: Ásgeir Ingvarsson

Að hlusta á sönginn hjá Samstillingu er
oft svakalega gaman.
Formaður stjórnar þá hjörðinni eins og her
og hlær að öllu saman.
Þorvaldur á gítarinn þúsund hljóma kann,
og þó að Ásgeir sé að reyna að elta hann,
gerir hann mest af að glepja spilarann
og geifla sig í framan.

Hér sýnir enginn af hlédrægninni vott,
né hljóðin spara.
Efnið er valið og afskaplega gott,
og engin tjara.
Aðallega er sungið um ást í gleði og sorg,
og aldrei tókst þeim betur en á Hótel Borg.
Aðrir sem skemmtu með skrípalæti og org
þeir skömmuðust sín bara.

Alveg er furðuleg framförin í söng
með framkomunni nýju,
enda var konan sem kenndi nokkuð ströng
og kom frá Síberíu.
Tilfinningar allar er auðveldara að tjá
með aðferðum sem dugðu vel í Rússíá.
Ástin er heit ef menn arga, bíta og slá
en illskan sýnd með hlýju.

Ef að menn vilja að lagið sungið sé
af sannarlegri snilli,
alveg frá bassa og uppá háa D
og alla tóna á milli,
þá ætla ég að setja hér sannleikann á blað,
að Samstilling er líkleg til að geta það.
Þau hafa allt sem að þarf á slíkum stað
og þokkalega hylli.

Palli Hall

Lag: Ásgeir Ingvarsson / Joe Hill

Um árið fóru vegagerðarverkamenn í stræk,
þeir voru starfsmenn ríkisins og áttu að brúa læk.
En Palla Halla verkstjóra var ekki orðið rótt
því hann átti að fá sinn bónus ef það gengi fljótt.

Palli Hall hækkaði ekki kaupið.
Palli Hall sendi fólkið heim.
Palli Hall hótaði að reka
þá sem heimta meiri laun en ríkið skammtar þeim.

Hann fór að vinna sjálfur, til að sýna þegnskapinn,
en sagaði í löppina og barði fingurinn.
Hann settist fremst á plankabút og sagað’ann svo af.
Þegar sögin náði í gegn fór allt á bólakaf.

Palli Hall hrapaði í ána.
Palli Hall missti gróða síns.
Palli Hall hann er orðinn engill
því til himna fór hann beimt á vegum ríkisins.

Og Sankti Pétur fagnaði og fylgdi honum inn.
,,Ég feginn er að sjá þig hérna, elsku Palli minn,
því englahörpuhljómsveitin hún hlíðir ekki baun
og þeir heimta vísitölu á yfirvinnulaun”.

Palli Hall hörpusveitarstjóri.
Palli Hall stjórnar þeim af list.
Palli Hall beitir sömu brögðum
og hann beitti á vegum ríkisins í fyrri vist.

En englagreyin geta líka á illri meðferð þreyst,
þeir endasendu Palla niðrí hitt ríkið – þú veist.
En þar var fyrir húsbóndi sem þurfti svona mann.
sem að þiggur launin fyrir að styðja hann.

Palli Hall orðinn yfirpúki.
Palli Hall rækir það af list.
Palli Hall hefur meiri bónus
en hann hlaut á vegum ríkisins í fyrri vist.

Fiddler’s Green

Texti: Ásgeir Ingvarsson

Ég gekk niðr’ að höfninni hásumardag
Og heyrði að sjómaður kvað þetta lag:
Nú er ég að sigla eins og þú sérð
í óvissu stefnir mín síðasta ferð.
Viðlag:
Hvar er sjóhattur, stígvél og stakkur?
Nú stýri ég ókunna dröfn.
Og sælir á meðan, nú sigli ég héðan.
Við sjáumst á knæpu í annari höfn.

Þar lendum við ýmist í ágætum stað,
en aðrir til Fjandans og nóg er um það.
Um hlýju og stillu mig hefur oft dreymt,
en hríðin og frostið við Ísland er gleymt.
Viðlag:

En hvar sem að lokum ég velkist í var,
þá veit ég að kráin mín finnst líka þar.
Og fagnandi konur, sem brosa svo blítt,
og bjórinn er gefins og rommið er fítt.
Viðlag:

Ég bið ekki um vængi eða hörpu í hönd,
en hressandi golu og öldu við strönd.
Á dragspilið gamla ég leik undir lög,
sem ljúflega syngja mér reiði og stög.
Viðlag:

Hatturinn

Lag: All around my hatt
Stælt: Ásgeir Ingv.

Gráan flókahatt eins og geislabaug um enni,
ber ég gráan flókahatt,það er aðalstáknið mitt.
Með hattinn ég stoltur um göturnar mig glenni,
og gengur þar maður,sem kann þetta og hitt.

Með gráan flókahatt hef ég gengið veginn breiða,
og með gráan flókahatt verið mikill karl og stór.
Þá vildu þær eiga mig Inga,Jóna og Heiða,
en ein þótti mér nóg,svo ég tók hattinn og fór.

Með útgerðarhatt og með átta skip á hafi,
og með útgerðarhatt er ég mikill karl og stór.
Í óreiðuskuldum var allt á bólakafi,
og allt fór það á hausinn.Ég tók hattinn og fór.

Bankastjórahatt hef ég borið einu sinni,
og með bankastjórahatt var ég mikill karl og stór.
Ég bauð mönnum lán til að bjarga útgerðinni.
Svo bankinn varð fallítt.Ég tók hattinn og fór.

Með þingmannahatt inn í þingsalinn ég renni,
og með þingmannahatt er ég mikill karl og stór.
En stjórnnin hún féll og þá féll ég strax með henni.
Það fall var svo hátt að ég tók hattinn og fór.

Með svartan pípuhatt fór ég suð´r að Bessastöðum,
og með svartan pípuhatt var ég mikill karl og stór.
Í átveislu sat ég með öðrum mönnum glöðum.
Með orðu á barmi ég tók hattinn og fór.

Liðhlaupinn

Texti: Ásgeir Ingvarsson
Lag: Boris Vian

Þér send´ég General mitt svar við kröfum þínum,
þú sérð á þessum línum, þó skiljirðu ekki enn,
að herkvaðning er brot á boði sem ég hlýði,
að berjast ekki í stríði né drepa aðra menn.
Ég neit´að bera vopn á vini mína og bræður,
að vega börn og mæður og feður eins og mig.
Sem liðhlaupi ég hverf úr landi mínu sekur,
og leiðist hvað það tekur mig sárt að angra þig.

Og framhjá þeirra gröf,sem fóru að boði þínu,
að fórna lífi sínu,ég geng minn flóttaveg.
En herkvaðningin þín nær eyrum þeirra ekki
og enga fangahlekki þeir skelfast eins og ég.
Þú átt þá hetjulund sem óttast ekki að deyja,
þú einn skalt fara og heyja þitt stríð við náungann.
En handtakirðu mig,sem herlög þín vill brjóta
þá hræðst´ekki að skjóta á vopnalausan mann.

Rosin the Bow

Ásgeir Ingvarsson

Hann flæktist um heiminn með fiðlu,
með fiðlu í hendi hann dó
Í efra er efalaust sæti
sem ætlað er Rosin the Bow.

:;Sem ætlað er Rosin the Bow.:;
Í efra er efalaust sæti
sem ætlað er Rosin the Bow.

Og þegar hann datt niður dauður
sagði Drottinn við engil og hló.
Já,færðu mér flösku af whiskí
að fagn´onum Rosin the Bow.

:;Að fagn´onum Rosin the bow.:;
Já,færðu mér flösku af whiskí
að fagn´onum Rosin the Bow.

Og kallið á knálega drengi,
á kránni eru ölföngin nóg,
og gefið þeim gallon af whiskí
að gleðjast með Rosin the Bow.

:;Að gleðjast með Rosin the Bow.:;
Og gefið þeim gallon af whiskí
að gleðjast með Rosin the Bow.

Svo koma þeir kátir og hressir
með karlinn og skóflu út í mó.
Og gera þar dálitla gryfju
að grafa hann Rosin the Bow.

:;Að grafa hann Rosin the Bow.:;
Og gera þar dálitla gryfju
að grafa hann Rosin the Bow.

Þið kaupið tvær kollur af whiskí
á knæpunni þar sem hann dó.
Svo látið þið þær eins og legstein
á leiðið hans Rosin the Bow.

:;Á leiðið hans Rosin the Bow.:;
Svo látið þið þær eins og legstein
á leiðið hans Rosin the Bow.

Nú er dauflegt á kránni á kvöldin,
því karlinn með fiðluna dó,
þó skenkt sé þar ennþá á skálar,
og skál fyrir Rosin the Bow.

:;Og skál fyrir Rosin the Bow.:;
Þó skenkt sé þar ennþá á skálar,
og skál fyrir Rosin the Bow.

Bjórvísur

Lag og texti: Ásgeir Ingvason

Á Íslandi er dugnaðar og dáða fólk,
en drykkjuskapar háttalagið fremur klént.
Þó brennivínið þar sé alltaf bruggað sterkt
er bjórinn minna en tvö prósent.

Og sitt í hvoru lagi er best að súpa það
og segja eins og Oddur sterki af Skaganum.
Brennivínið drekk ég fyrst en bjórinn svo,
það blandast allt í maganum.

Templararnir eru á móti ölinu
og öllu sem er veikara en brennivín
svo unglingarnir læri að drekka strax af stút
og staulast fullir heim til sín.

Og sitt í hvoru……

Því sullar maður kláravíni í sanabjór
og sýpur eins og væri þetta drykkja best.
Þeir kalla þetta bjórlíki á börunum
og bjórlík þá sem drekka mest.

Og sitt í hvoru….

Ég sulla í mig úr glasinu og syng við raust
og sæmilegt er bragðið hvað sem öðrum finnst.
Það gerir engan vitlausari en venja er til,
en versta þá sem drekka minnst.

Og sitt í hvoru….