Lag og texti: Ásgeir Ingvarsson
Að hlusta á sönginn hjá Samstillingu er
oft svakalega gaman.
Formaður stjórnar þá hjörðinni eins og her
og hlær að öllu saman.
Þorvaldur á gítarinn þúsund hljóma kann,
og þó að Ásgeir sé að reyna að elta hann,
gerir hann mest af að glepja spilarann
og geifla sig í framan.
Hér sýnir enginn af hlédrægninni vott,
né hljóðin spara.
Efnið er valið og afskaplega gott,
og engin tjara.
Aðallega er sungið um ást í gleði og sorg,
og aldrei tókst þeim betur en á Hótel Borg.
Aðrir sem skemmtu með skrípalæti og org
þeir skömmuðust sín bara.
Alveg er furðuleg framförin í söng
með framkomunni nýju,
enda var konan sem kenndi nokkuð ströng
og kom frá Síberíu.
Tilfinningar allar er auðveldara að tjá
með aðferðum sem dugðu vel í Rússíá.
Ástin er heit ef menn arga, bíta og slá
en illskan sýnd með hlýju.
Ef að menn vilja að lagið sungið sé
af sannarlegri snilli,
alveg frá bassa og uppá háa D
og alla tóna á milli,
þá ætla ég að setja hér sannleikann á blað,
að Samstilling er líkleg til að geta það.
Þau hafa allt sem að þarf á slíkum stað
og þokkalega hylli.