Ég get séð með mínum augum,
ég get heyrt með mínum eyrum,
fundið lykt með mínu nefi
og bragð með tungunni.
Ég get klappað með mínum höndum,
ég get stappað með mínum fótum,
ég get hrist, ég get hrist allan minn kropp.
Author: songvadmin
Hreyfa- frjósa- söngurinn…..
Hreyfa litla fingur, hreyfa litla fingur,
hreyfa litla fingur og frjósa eins og skot !
Hreyfa lítinn nebba, hreyfa lítinn nebba,
hreyfa lítinn nebba og frjósa eins og skot !
Hreyfa litlar tær, hreyfa litlar tær …..o.s.frv.
Hreyfa litla rassa, hreyfa litla rassa …o.s.frv.
Hreyfa litla tungu, hreyfa litla tungu ..o.s.frv.
Hæ – meiri söng
Tryggvi Þorsteinsson
Hæ – meiri söng og meira yndi,
meira táp og meira fjör,
meiri störf með ljúfu lyndi,
meira líf og oftar hlýlegt bros á vör.
Stöndum öll und einu merki,
stuðlum öll að einu verki,
þá rís landsins stóri, sterki
stofn með nýjum glæsibrag.
Vinnum því Íslandi allt er við megum
og eflum þjóðarhag.
Færum því dýrustu fórn er við eigum
að fótum sérhvern dag.
Vinnum því Íslandi allt er við megum
og eflum þjóðarhag.
Við skátar hér, þið skátar þar,
við skátar alls staðar.
Hæ – meiri söng…..
Kvæðið um fuglana
Lag: Atli Heimir Sveinsson
Texti: Davíð Stefánsson
Snert hörpu mína, himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf
og festi á hann streng og rauðan skúf.
Úr furutré, sem fann ég út við sjó,
ég fugla skar og líka’ úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf
og hlýt að geta sungið í þá líf.
Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.
Ég heyri’ í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
og hlustið, englar guðs í paradís.
Vikivakar
Lag: Valgeir Guðjónsson
Texti: Jóhannes úr Kötlum
Sunnan yfir sæinn breiða
sumarylinn vindar leiða.
Draumalandið himinheiða
hlær – og opnar skautið sitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar,
hjartað mitt!
Gakk þú út í græna lundinn,
gáðu fram á bláu sundin.
Mundu, að það er stutt hver stundin,
stopult jarðneskt yndi þitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar,
hjartað mitt!
Allt hið liðna er ljúft að geyma,
– láta sig í vöku dreyma.
Sólskindögum sízt má gleyma,
– segðu engum manni hitt!
Vorið kemur, heimur hlýnar,
hjartað mitt!
Síldarvalsinn
Steingrímur Sigfússon / Haraldur Sófaníassson
Syngjandi sæll og glaður,
til síldveiða nú ég held.
Það er gaman á Grímseyjarsundi
vð glampandi kveldsólareld.
Þegar hækkar í lest og hleðst mitt skip
við háfana fleiri og fleiri.
Svo landa ég síldinni sitt á hvað:
á Dalvík og Dagverðareyri.
Seinna er sumri hallar
og súld og bræla er,
þá held ég fleyi til hafnar.
Í hrifningu skemmti ég mér
á dunandi balli, við dillandi spil
og dansana fleiri og fleiri.
Því nóg er um hýreyg og heillandi sprund
á Dalvík og Dagverðareyri.
Söngurinn hennar Siggu
Lag og ljóð: Bubbi Morthens
Ég hitti litla dömu, í parís var að hoppa,
sippað getur líka, fer heim með rifna sokka.
Teiknar fínar myndir, býður mér að þiggja
eina af sér og eina af mömmu,
skrifar undir: Sigga.
Samt heilla hana fínir kjólar,
þegar augun í þá rekur,
með maskalit og púðri andlit sitt hún þekur.
Dansað getur líka tja tja tja og tangó.
Liðug eins og ormur, vinnur mig í limbó.
Hún á það til að hlæja, getur líka grátið.
En oftast brýst í gegnum tárin,
sæta litla brosið.
Teiknar skrýtnar myndir, býður mér að þiggja
eina af sér og eina af mömmu,
skrifar undir: Sigga.
Ef þú ert súr
Lag og texti: Ólafur Haukur Símonarson
Ef þú ert súr, vertu þá sætur.
Sjáðu í speglinum hvernig þú lætur.
Ekkert er varið í sút eða seyru.
Teygðu á þér munnvikin út undir eyru.
Galdurinn er að geta brosað,
geta í hláturböndin tosað,
geta hoppað, hlegið, sungið endalaust.
Ef þú ert fýldur, þá líkist þú apa,
eða krókódíl sem er of fúll til að gapa.
Ekkert er varið í sút eða seyru.
Teygðu á þér munnvikin út undir eyru.
Galdurinn er að geta ……..
Ef þú ert illur, þá líkistu nauti
eða eldgömlum potti með viðbrenndum grauti.
Ekkert er varið í sút eða seyru.
Teygðu á þér munnvikin út undir eyru.
Galdurinn er að geta …….
Vér göngum svo léttir í lundu
Freysteinn Gunnarsson /Felix Körling
Vér göngum svo léttir í lundu,
því lífsgleðin blasir oss við.
Vér lifum á líðandi stundu
við lokkandi söngvanna klið.
Tra lala lalala…………
Vér göngum og syngjum hér saman,
því söngurinn hann er vort mál.
Og nú verður glaumur og gaman,
nú gleðjist hver einasta sál.
Tra lala lalala………
Íþrótta-álfurinn
Úr leikr. Latibær, eftir Magnús Scheving
Sérðu álfa – sitja og gera ekki neitt,
súra á svipinn og þykja lífið svo leitt?
Nei, alltaf þar sem er álfamergð
eru einhver ósköp gangandi á.
Við erum alltaf á fullri ferð
við erum bara þannig gerð.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
álfanna fyrirmynd sjálf.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
þú finnur ei iðnari álf.
Ekki syrgja og setja hendur í skaut,
ég sýna skal þér og fólkinu glænýja braut.
Letibykkjur og bjálfana
í Latabænum ég þjálfa í lag.
Kreppið á ykkur kálfana
því það er ég sem þjálfa álfana.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
alltaf sprækur og hress.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
þekki ekki streitu né stress.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
íþróttir eru mitt fag.
Já, ég er íþrótta-álfurinn,
öllu ég kippi í lag !